Sara Rún Hinriksdóttir og Martin Hermannsson hafa verið valin körfuknattleikskona og körfuknattleikskarl ársins 2020 af KKÍ. Þetta er í 23. skipti sem valið er tvískipt milli karla og kvenna eða allt frá árinu 1998.

Körfuknattleikskona og karl ársins eru valin í kosningu af stjórn og starfsmönnum KKÍ, afreksnefnd KKÍ og landsliðsþjálfurum.

Martin er að fá tilnefninguna í fimmta skipti og fimmta árið í röð. Sara Rún er að hljóta nafnbótina í fyrsta sinn.

Val á körfuknattleikskonu ársins 2020

Körfuknattleikskona ársins 2020:

  1. Sara Rún Hinriksdóttir
  2. Hildur Björg Kjartansdóttir
  3. Helena Sverrisdóttir

Aðrar sem fengu atkvæði eru í stafrófsröð:

Bríet Sif Hinriksdóttir, Hallveig Jónsdóttir, Thelma Dís Ágústsdóttir og Þóra Kristín Jónsdóttir.

Sara Rún Hinriksdóttir · Leicester Riders, England

Sara Rún er að hljóta viðurkenninguna í fyrsta sinn. Sara Rún sem er uppalin í Keflavík hefur frá unga aldri verið framúrskarandi leikmaður sínum flokkum og með meistaraflokki hér heima. Sara Rún hefur haldið áfram að bæta sinn leik jafnt og þétt á undanförnum árum. Sara Rún lék með Canisius háskólanum í Bandaríkjunum í fjögur ár með námi og samdi svo við Leicester Riders í Bretlandi í fyrra. Síðastliðið vor varð hún bikarmeistari með sínu liði og var valinn besti leikmaður liðsins í úrslitunum. Í deildinni var hún að skora tæp 17 stig og taka sex fráköst að meðaltali í leik en liðið hennar var í fyrsta til öðru sæti þegar deildin var stoppuð vegna heimsfaraldsins. Með íslenska landsliðinu hefur Sara Rún tekið stórt skref í framlagi en hún sýndi styrk sinn í landsleikjunum tveim í nóvember og sannaði að hún getur verið einn af burðarásum liðsins á næstu árum. Þá leiddi hún liðið í öllum helstu tölfræðiþáttum, það er yfir stig, fráköst og stoðsendingar og var besti leikmaður liðsins í leikjunum tveim.

Hildur Björg Kjartansdóttir · Valur (KR á síðasta tímabili)

Hildur Björg hefur leikið sem atvinnumaður erlendis undanfarin ár og kom þá til KR og lék með þeim þangað til tímabilið stoppaði í vor. Með liðinu fór hún í bikarúrslitaleikinn í febrúar, en í undanúrslitunum skoraði Hildur Björg 37 stig fyrir sitt lið. Hún skipti yfir til Vals fyrir núverandi tímabil og lék einn leik áður en hún meiddist/tímabilið stoppaði v/ Covid-19 og hún missti þar af leiðandi af landsliðsglugganum í nóvember. Hildur Björg verður áfram ein af lykilleikmönnum íslenska landsliðsins og hefur verið það á síðustu árum með dugnaði og framlagi í helstu tölfræðiþáttum. Í undankeppninni sem hófst í nóvember fyrir ári síðan sannaði hún mikilvægi sitt fyrir liðið með hæð sinni og skoruðum stigum og teknum fráköstum.

Helena Sverrisdóttir · Valur

Helena er þriðja í valinu í ár en hún hefur verið valin „Körfuknattleikskona árins“ 12 sinnum á síðustu 16 árum sem er einstakt afrek og hefur hlotið nafnbótina lang oftast hjá konunum. Helena var lykilleikmaður Vals á síðustu leiktíð sem varð deildarmeistari eftir að tímabilið stoppaði. Þá var Helena efsti íslenskra leikmanna í tölfræðiþáttum yfir stig skoruð, fráköst og framlag að meðaltali í leik. Helena missti af nóvember landsliðsglugganum þar sem hún eignaðist stúlkubarn á dögunum en hefur á undanförnum árum farið fyrir liði sínu hvað varðar alla helstu tölfræði og framlag íslensku leikmannana í landsliðinu.

Val á körfuknattleikskarli ársins 2020:

Körfuknattleikskarl ársins 2020:

  1. Martin Hermannsson
  2. Tryggvi Snær Hlinason
  3. Haukur Helgi Briem Pálsson

Aðrir sem fengu atkvæði eru í stafrófsröð:

Elvar Már Friðriksson, Hörður Axel Vilhjálmsson og Jón Axel Guðmundsson.

Martin Hermannsson · Valencia, Spánn (Alba Berlin í Þýskaland á síðustu leiktíð)

Martin er kjörinn körfuknattleikskarl ársins fimmta árið í röð. Martin hefur á undanförnum árum verið burðarás íslenska landsliðsins og er á sínu 26. aldursári einn mikivægasti leikmaður liðsins. Hann hefur tekið framförum í leik sínum ár eftir ár og sýnir framganga hans sem atvinnumaður það berlega. Martin kláraði sitt annað ár með Alba Berlin í Þýskalandi á síðasta tímabili þar sem hann hann bætti sig milli ára og var lykilmaður í liði sínu í sterkri atvinnumannadeild þar í landi. Hann átti mjög gott ár hvað varðar tölfræði og framlag fyrir liðið sitt. Alba Berlín vann tvöfalt, bæði deild og bikar heimafyrir, og þá lék liðið í EuroLeague, meistardeildinni í körfuknattleik þar sem Martin var m.a valinn leikmaður umferðarinnar sem er frábært afrek, en hann er annar íslendingurinn til að leika í EuroLeague, meistaradeild sterkustu liða Evrópu í körfuknattleik.

Tryggvi Snær Hlinason · Basket Zaragoza, Spánn

Tryggvi Snær hefur haldið áfram að taka miklum framförum ár eftir ár og er nú á sínu fjórða ári sem atvinnumaður í efstu deild á Spáni, sem talin er sú besta í Evrópu. Eftir að hafa leikið með Valencia og Monbus Obradoiro færði hann sig yfir til Zaragoza í fyrra og er nú í herbúðum liðsins annað árið í röð. Þar hefur Tryggvi Snær átt stóran þátt í velgengni liðsins og skilað stærra og stærra framlagi milli ára og þar af leiðandi fengið stærra hlutverk í liðinu. Hann er annar yfir bestu nýtingu deildarinnar á Spáni yfir nýtingu skota inni í teig og leiddi deildina nýlega yfir fjölda troðslna að auki. Þá er hann í 17. sæti yfir framlag að meðaltali í leik í deildinni og í 9.-11. sæti yfir frákastahæstum menn. Tryggvi Snær hefur einnig sýnt sama stíganda í leik sínum með landsliðinu á árinu. Hann tók þátt í öllum landsliðsverkefnum ársins og er einn af lykilmönnum liðsins í vörn og sókn, þar sem andstæðingar Íslands leggja ofuráherslu á að stöðva Tryggva hverju sinni, og munu þeir þurfa að halda því áfram á næstu árum.

Haukur Helgi Briem Pálsson · MoraBanc Andorra, Spánn (Unics Kazan í Rússlandi á síðustu leiktíð)

Haukur Helgi lék með Unics Kazan í Rússlandi á síðustu leiktíð og stóð sig vel með liðinu. Haukur Helgi samdi svo við MoraBanc Andorra í efstu deild á Spáni fyrir þetta tímabil og hefur verið lykilmaður hjá liðinu síðan. Hann hefur verið byrjunarliðsmaður og er með stórt framlag í hverjum leik fyrir liðið sitt. Með landsliðinu er Haukur Helgi einnig einn mikilvægasti leikmaður þess og hefur sýnt það í síðustu skipti sem hann hefur getað leikið með liðinu hversu stórt hlutverk hann leysir í vörn og sókn en Haukur Helgi verður áfram einn mikilvægasti leikmaður landsliðsins á komandi árum.