Dregið var í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í kvennaflokki í dag og þar lentu þrjú Íslendingalið saman í D-riðli. Þá fer Sara Björk Gunnarsdóttir aftur til Lyon með Juventus.

Alls eru sjö íslenskar landsliðskonur í riðlakeppni Meistaradeildarinnar að þessu sinni og Cloé Lacasse sem er með íslenskan ríkisborgararétt.

Glódís Perla Viggósdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Cecilía Rán Rúnarsdóttir og stöllur í Bayern mæta Guðrúnu Arnardóttur og félögum í Rosengard sem og Benfica með Cloé innanborðs í D-riðli. Barcelona er fjórða liðið í riðlinum.

Glódís þekkir vel til Rosengard eftir að hafa leikið með félaginu áður en hún gekk til liðs við Bayern.

Í C-riðli er Juventus með Söru Björk innanborðs, Arsenal, Lyon og Zurich en Sara gekk til liðs við Juventus frá Lyon fyrr á þessu ári.

Í A-riðli er að finna PSG þar sem Berglind Björg Þorvaldsdóttir er á mála ásamt Chelsea, Real Madrid og K.F.F. Vllzania frá Albaníu.

Að lokum er Wolfsburg með Sveindísi Jane Jónsdóttur í B-riðli með Valsbönunum í Slavia Praha, St. Pölten frá Austurríki og Roma.