Knattspyrnukonan Sara Björk Gunnarsdóttir mun leika sinn síðasta leik með þýska liðinu Wolfsburg þegar liðið mætir Söndru Maríu Jessen og samherjum hennar hjá Bayer Leverkusen um komandi helgi. Sara Björk mun ekki spila með Wolfsburg á móti Essen í úrslitaleik þýsku bikarkeppninnar laugardaginn 4.júli.

Þetta staðfesti hún í samtali við mbl.is en þar segir hún að þetta sé vegna þess að samningur hennar við Wolfsburg verði runninn út þegar bikarúrslitaleikurinn fer fram.

Nýr vinnuveitandi hennar, sem talið er að sé franska stórliðið Lyon, heimilar henni ekki að spila þennan leik. Snýr það að tryggingamálum og því að þeir vilji ekki að hún mæti meidd til undirbúnings fyrir næsta keppnistímabil.

Sara Björk mun kveðja Wolfsburg sem fjórfaldur Þýskalandsmeistari og það er svo undir liðsfélögum hennar komið hvort bikarmeistaratitlarnir verði fjórir sömuleiðis.