„Ég er búin að vera í viðræðum við lið síðustu vikur og það er von á tíðindum á næstunni,“ segir Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði landsliðsins, aðspurð út í næsta skref ferilsins en hún er að renna út á samningi hjá Lyon.

Sara ræddi við fjölmiðla fyrir fyrstu æfingu kvennalandsliðsins í aðdraganda EM í dag.

Þar barst talið að framtíðaráhorfum Söru Bjarkar sem er að renna út á samning en hún vildi ekkert gefa upp hvort að hún hygðist semja við lið áður en EM myndi hefjast.

„Ég er bara að einbeita mér að Evrópumótinu. Það verður bara að koma í ljós,“ sagði Sara glettin, aðspurð hvort að hún ætti von á því að klára þessi mál fyrir EM.