Sara Björk Gunnarsdóttir kom Juventus á bragðið í 2-0 sigri á Köge í gær með fyrsta marki sínu fyrir ítalska félagið. Þetta var fimmta félagið sem Sara Björk skorar fyrir í Meistaradeild Evrópu.

Sara sem gekk í raðir Juventus fyrr á þessu ári kom Juventus yfir á 11. mínútu leiksins. Juventus vann leikinn 2-0 og einvígið 3-1 og verður því í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í vetur.

Hafnfirðingurinn, sem fagnar afmæli sínu í dag, var þar að skora fyrir sitt fimmta félag í Meistaradeildinni. Áður var hún búin að skora fyrir Breiðablik, Rosengard, Wolfsburg og Lyon.

Í heildina eru mörkin orðin 23 í Meistaradeild Evrópu og er hún markahæsti Íslendingurinn í sögu keppninnar með tveggja marka forskot á Margréti Láru Viðarsdóttur.

Sara varð árið 2020 fyrsti Íslendingurinn til að skora í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu þegar hún innsiglaði 3-1 sigur Lyon á Wolfsburg í úrslitunum.

Mörk Söru í Meistaradeildinni:

Juventus - 1

Lyon - 1

Wolfsburg - 8

Rosengard - 10

Breiðablik - 3