Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, var ánægð með spilamennsku liðsins þegar það gerði 1-1 jafntefli á móti Svíum í leik liðanna í fimmtu umferð í undankeppni EM 2022 á Laugardalsvellinum í kvöld.

„Mér fannst við spila vel í þessum leik og eiga stigið skilið. Það voru mikil vonbrigði að markið mitt fékk ekki að standa og það var sérstaklega svekkjandi eftir að hafa séð það aftur á myndskeiði eftir leikinn. Það var ekkert brot þarna en svona er þetta bara," sagði Sara Björk á blaðamannafundinum.

„Ég er mjög ánægð með þá ungu leikmenn sem hafa verið að koma inn í liðið síðustu mánuðina og þá einkum og sér í lagi það hugarfar sem þær koma með inn í æfingar og leiki. Þær vilja ná árangri og eru tilbúnar að leggja á sig þá vinnu sem þarf til þess að það takist," sagði Sara Björk sem var sérstaklega spurð út í frammistöðu Sveindísar Jane Jónsdóttur.

„Þetta var stórt próf fyrir Sveindísi að máta sig við leikmenn í einu besta landsliði heims. Hún sýndi það og sannaði að hún á heima á þessu sviði og það var gaman að sjá hana og aðra leikmenn liðsins í þessum leik. Við spiluðum vel, fengum verðskuldað stig og áttum klárlega góðan möguleika á að tryggja okkur sigur,” sagði landsliðsfyrirliðinn.