Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðskona Íslands, skrifaði á dögunum undir samning við Juventus en félagið staðfesti þetta í dag. Hún verður í herbúðum ítalska félagsins næstu tvö ár.

Sara er að renna út á samningi hjá Lyon í Frakklandi og var því frjálst að finna sér nýtt félag. Hún gengur til liðs við ítalska félagið án greiðslu þegar samningur hennar í Frakklandi klárast.

Juventus verður fjórða félag Söru í Evrópu en Sara hefur leikið með og orðið meistari hjá Rosengard í Svíþjóð, Wolfsburg í Þýskalandi og Lyon í Frakklandi.

Stórveldið hefur unnið ítalska meistaratitilinn undanfarin sex ár og hefur komist í útsláttarkeppni Meistaradeildar Evrópu síðastliðin fjögur ár.

Sara fékk einmitt nokkrar mínútur þegar Juventus og Lyon mættust í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu fyrr á þessu ári.