Sara Björk Gunnarsdóttir, leikmaður íslenska landsliðið í knattspyrnu segist upplifa blendnar tilfinningar nú þegar örlög Íslands á Evrópumótinu eru ljós og liðið fallið úr leik eftir hetjulega frammistöðu gegn Frökkum í lokaumferð riðlakeppninnar.

,,Blendnar tilfinningar. Ég er stolt af liðinu og frammistöðu kvöldsins, þetta var stórkostlegur leikur hjá okkur á móti einu besta liði í heimi en líka ótrúlega mikið af tárum og svekkelsi því mótið er búið að vera svolítið stöngin út hjá okkur. En eftir þessa þrjá leiki finnst mér við hafa átt það skilið að fara upp,“ sagði Sara Björk í viðtali eftir leik.

Ísland lenti undir strax á fyrstu mínútu leiksins, það sem Sara segir að hafi verið líkt og blaut tuska í andlitið á leikmannahópnum.

,,Þetta var blaut tuska í andlitið en hvernig við komum til baka sýnir bara hversu mikill karakter býr í okkar liði. Við héldum okkar leikplani áfram þrátt fyrir þetta, héldum í boltann og sköpuðum færi. Við létum þetta ekkert á okkur fá og mér finnst það stórkostlegt, hvernig við komum til baka eftir þetta.“

Viðtalið við Söru Björk í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.