Sara Björk Gunnarsdóttir batt endahnútinn á 5-0 sigur Wolfsburg á móti Arminia Bielefeld þegar liðin mættust í undanúrslitum þýsku bikarkeppninnar í knattspyrnu kvenna í dag. Sara Björk kom inná sem varamaður í leiknum á 73. mínútu leiksins og skoraði fimmta mark Wolfsburg skömmu fyrir leikslok.

Í bikarúrslitaleiknum mætir Wolfsburg annað hvort Söndru Maríu Jessen og samherjum hennar hjá Bayer Leverkusen eða Essen sem eigast við í seinni undanúrslitaleiknum þessa stundina. Bikarúrslitaleikurinn fer svo fram í Köln 4. júlí næstkomandi.

Wolfsburg hefur orðið bikarmeistari síðustu fimm árin og hefur Sara Björk þar af leiðandi unnið titilinn öll þrjú keppnistímabilin sem hún hefur leikið með þýska liðinu. Sara mun kveðja Wolfsburg eftir að yfirstandandi leiktíð lýkur og getur kvatt liðið sem tvöfaldur meistari.

Þegar fjórar umferðir eru eftir af þýsku efstu deildinni í knattspyrnu kvenna hefur Wolfsburg sem hefur orðið Þýskalandsmeistari síðustu fimm tímabilin átta stiga forskot á Bayern München á toppi deildarinnar. Sara Björk hefur sömuleiðis orðið landsmeistari með Wolfsburg síðustu þrjú árin.