Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir vann í dag þýska meistaratitilinn í knattspyrnu kvenna með liði sínu Wolfsburg en liðið tryggði sér sigur í deildinni sjötta árið í röð með 2-0 sigri gegn Freiburg í 20. umferð deildarinnar í dag.

Það voru þýski landsliðsmiðvörðuinn Joelle Wedemeyer og danska markamaskínan Pernille Harder sem skoruðu mörk Wolfsburg í leiknum. Wolfsburg hefur átta stiga forystu á Bayern München þegar tvær umferðir eru eftir af deildinni.

Sara Björk gekk til liðs við Wolfsburg frá sænska liðinu Rosengård árið 2016 og hefur síðan þá verið í lykilhlutverki í fjórum meistaratitlum liðsins. Hún lék allan leikinn í sigrinum gegn Freiburg í dag.

Wolfsburg mætir svo Essen í úrslitum þýsku bikarkeppninnar 4. júlí næstkomandi. Þar getur Wolfsburg orðið bikarmeistari sjötta árið í röð og í sjöunda skipti alls í sögu félagsins. Þá mætir liðið Glasgow City í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Eftir að yfirstandandi leiktíð lýkur mun Sara Björk yfirgefa herbúðir Wolfsburg og getur hún þar með kvatt liðið sem fjörfaldur tvöfaldur meistari í Þýskalandi.

Þessi 29 ára gamli miðvallarleikmaður hefur verið orðuð við stóreldin Lyon frá Frakklandi og Barcelona á Spáni.