Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir mun í kvöld jafna leikjametið hjá kvennalandsliðinu þegar hún leikur sinn 133. leik fyrir Íslands hönd gegn Svíum í undankeppni EM 2022.

Með því jafnar Sara leikjamet Katrínar Jónsdóttur sem lék á sínum tíma 133 leiki á nítján ára landsliðsferli.

Sara var aðeins sextán ára gömul þegar hún lék fyrsta leik sinn fyrir Ísland í 1-2 tapi gegn Slóvenum ytra árið 2007.

Það tók Söru ekki langan tíma að stimpla sig inn í liðið sem lykilleikmaður og hefur hún byrjað alla tíu leiki Íslands í lokakeppnum EM.

Í leikjunum 132 hefur Sara skorað tuttugu mörk og vantar því aðeins eitt til að jafna Katrínu Jónsdóttur í fimmta sæti yfir markahæstu leikmenn Íslands frá upphafi.

Þá er Sara sá leikmaður sem hefur oftast hlotið gult spjald fyrir kvennalandsliðið, alls þrettán gul spjöld.