Sara Björk Gunnarsdóttir, leikmaður franska stórliðsins Lyon og fyrirliði íslenska kvennalandsliðsisns í knattspyrnu er íþróttamaður ársins 2020.

Hápunktar ársins hjá Söru Björk eru sigur hennar með Lyon í Meistaradeild Evrópu þar sem hún skoraði eitt marka liðsins í úrslitaleik keppninnar.

Þá varð hún tvöfaldur meistari með þýska liðinu Wolfsburg. Sara Björk kórónaði svo árið með því að vera í fararbroddi hjá íslenska liðinu þegar liðið tryggði sér sæti í lokakeppni EM 2022 í byrjun desember.

Lyon trónir svo á toppi frönsku efstu deildarinnar eins og sakir standa og er komið í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar sem heldur áfram í febrúar á næsta ári.

Mynd/Árni Vilhjálmsson

Alls fengu 25 íþróttamenn atkvæði í kjörinu í ár. Þar af voru 15 karlar en 10 konur. Íþróttafólk frá níu mismunandi sérsamböndum innan ÍSÍ fengu stig í kjörinu í ár.

Sara Björk hlaut fullt hús stiga eða 600 stig. Þetta er tólfta sinn í 65 ára sögu kjörsins sem Íþróttamaður ársins er kosinn með fullu húsi stiga en viðkomandi er sá níundi sem afrekar það.

Tuttugu meðlimir kusu árið 2009 þegar síðast var um fullt hús að ræða en sem fyrr segir kusu 30 að þessu sinni og hefur íþróttamaður ársins því aldrei fengið fullt hús frá jafnmörgum meðlimum Samtaka íþróttafréttamanna og um er að ræða metfjölda stiga. Þá er þetta einnig stærsti sigur sögunnar, 244 stiga munur.

Hér að neðan má sjá stigafjölda þeirra íþróttamanna sem röðuðu sér í tíu efstu sætin í kjörinu að þessu sinni.

Íþróttamaður ársins 2020

  1. Sara Björk Gunnarsdóttir, fótbolti – 600
  2. Martin Hermannsson, körfubolti – 356
  3. Aron Pálmarsson, handbolti – 266
  4. Anton Sveinn McKee, sund – 209
  5. Bjarki Már Elísson, handbolti – 155
  6. Glódís Perla Viggósdóttir, fótbolti – 126
  7. Guðni Valur Guðnason, frjálsíþróttir – 106
  8. Ingibjörg Sigurðardóttir, fótbolti – 84
  9. Gylfi Þór Sigurðsson, fótbolti – 74
  10. Tryggvi Snær Hlinason, körfubolti – 66
Sara Björk Gunnarsdóttir er hér í leik með Lyon gegn Juventus í Meistaradeild Evrópu.
Fréttablaðið/Getty