Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, er á leið aftur til æfinga hjá félagsliði sínu, Lyon, eftir barneignafrí.

Sara Björk eignaðist son sinn, Ragnar Frank, með fótboltamanninum Árna Vilhjálmssyni 16. nóvember síðastliðinn. Nú tæpum tveimur mánuðum síðar heldur hún til æfinga með liði sínu.

Miðjumaðurinn birtir færslu á Instagram-síðu sinni í dag þar sem hún hvetur konur til þess að velja ekki á milli þess að stofna fjölskyldu og atvinnu sinnar.

„Tíu mánuðum síðar! Verða ólétt, fæða fallegasta strák veraldar, ómetanlegur tími með fjölskyldu og vinum og mikill vinnu á Íslandi. Nú er tími til að fara aftur til Lyon.

Hlakka mikið til að hitta liðsfélaga mína. Get ekki beðið eftir að leggja á mig það sem þarf til að komast aftur inn á völlinn. Að fara til baka sem móðir með fjölskylduna með er afar þýðingarmikið fyrir mig og gefur mér auka kraft.

Ég vona að ég veiti öðrum konum innblástur og sýni það í verki að það þurfi ekki að fórna íþróttaferli eða frama í atvinnulífi til þess að eignast fjölskyldu. Gerið bæði," segir Sara Björk í færslunni.