Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins, fór fögrum orðum um akedemíuvöll Manchester City þar sem Ísland mætir Belgum í Evrópumóti kvenna á morgun þegar hún var spurð út í völlinn.

Ummæli Söru fyrr á þessu ári þar sem hún gagnrýndi UEFA og mótshaldara fyrir val á leikvangi rötuðu víðsvegar um heiminn og spurðist norsk fjölmiðlakonan fyrir um ummæli Söru.

„Þetta er ekki eitthvað sem ég er að einbeita mér að. Þetta er frábær leikvöllur, aðstæðurnar til fyrirmyndar og ég reyni að einbeita mér bara að leiknum á morgun.“

Þorsteinn Halldórsson tók í sama streng þegar hann var spurður út í leikvöllinn enda Þorsteinn harður stuðningsmaður Manchester City og lýsti þessu svæði sem Mekku í hans augum.