Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur í Lyon eru Evrópumeistarar í annað sinn á síðustu þremur árum eftir 3-1 sigur á Barcelona í úrslitaleiknum í kvöld.

Þetta er í áttunda skiptið sem Lyon hampar Evrópumeistaratitlinum en ekkert annað lið hefur unnið oftar en fjórum sinnum.

Um leið er þetta annar Evrópumeistaratitill Söru Bjarkar. Aðeins tvö lið hafa unnið Meistaradeild Evrópu oftar í tuttugu ára sögu keppninnar, Lyon og Frankfurt.

Sara Björk var á bekknum í dag og kom ekkert við sögu eftir að hafa skorað eitt marka Lyon í úrslitaleiknum 2020.

Sara Björk tilkynnti á dögunum að hún væri á förum frá Lyon í sumar.

Amandine Henry, Ada Hegerberg og Catarina Macario komu Lyon 3-0 yfir strax í fyrri hálfleik áður en Alexia Putellas minnkaði muninn fyrir lok hálfleiksins.

Mark Henry var einkar fallegt þegar hún vann boltann á vallarhelmingi Börsunga og skoraði með skoti af þrjátíu metra færi.

Þrátt fyrir margar sóknarlotur spænska liðsins í seinni hálfleik fundu þær ekki leið framhjá vörn Lyon.

Með því varð Lyon annað liðið til að vinna Barcelona á þessu tímabili.

Sara varð árið 2020 annar Íslendingurinn til að vinna Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu á eftir Eiði Smára Guðjohnsen og er hún nú sigursælasti Íslendingur keppninnar frá upphafi.