Sara Björk Gunnarsdóttir verður í kvöld leikjahæsti leikmaður Íslands frá upphafi þegar hún tekur fram úr Katrínu Jónsdóttur í 134 landsleik sínum fyrir Íslands hönd.

Sara verður með fyrirliðabandið þegar Ísland mætir Svíþjóð ytra í afar mikilvægum leik í undankeppni EM. Hin þrítuga Sara verður því eftir kvöldið ein á báti í leikjafjölda og heldur áfram að bæta metið næstu árin.

Sara lék fyrsta landsleik sinn um sumarið 2007, þá aðeins sextán ára gömul og hefur verið í lykilhlutverki í landsliðinu í rúman áratug.

Það eru 2588 dagar liðnir síðan Katrín lék 133. og síðasta landsleik sinn eða rétt rúmlega sjö ár og einn mánuður.

Þann daginn var Sara Björk að leika 67. leik sinn fyrir hönd Íslands, aðeins nokkrum dögum fyrir 24 ára afmælisdag sinn.

Þá er Sara í 6. sæti yfir markahæstu leikmenn kvennalandsliðsins frá upphafi með tuttugu mörk. Henni vantar aðeins eitt mark til að jafna Katrínu á því sviði.

Sara á einnig metið yfir flest gul spjöld í sögu kvennalandsliðsins með þrettán spjöld en henni hefur aldrei verið vísað af velli í landsleik.