Alþjóðaknattspyrnusambandið tilkynnti í dag lið ársins í kvennaboltanum en þar er að finna tvo leikmenn Wolfsburg sem leika með Söru Björk Gunnarsdóttir, miðjumanni íslenska landsliðsins.

Lyon á flesta aðila í liðinu eða fjóra en níu af ellefu leikmönnunum leika í Evrópu.

Sara Björk var ein 55. leikmanna sem komu til greina í lið ársins en hún komst ekki inn að þessu sinni.

Hollenski sóknarmaðurinn Lieke Martens er skiljanlega í fremstu röð en hún var á dögunum valin besti leikmaður heims af FIFA.

Með henni í fremstu röð eru Pernille Harder, danski liðsfélagi Söru hjá Wolfsburg og Alex Morgan sem leikur með Orlando Pride í heimalandi sínu.

Nilla Fischer hjá Wolfsburg og sænska landsliðinu er í miðri vörninni en með henni eru þær Lucy Bronze frá Bretlandi(Lyon), Wendie Renard frá Frakklandi(Lyon) og Irene Paredes frá Spáni(PSG).

Á miðjunni eru liðsfélagarnir frá Lyon, hin franska Camille Abily og Dzsenifer Marozsán frá Þýskalandi en með þeim á miðjunni er hin brasilíska Marta sem leikur með Orlando Pride þessa dagana. Að lokum er hin sænska Hedvig Lindahl í markinu sem leikur með Chelsea.

Er þetta þriðja árið sem úrvalslið kvenna í heiminum er valið og hefur Wendie Renard verið valin í öll þrjú skiptin.

Nilla Fischer, Dzsenifer Marozsan, Marta og Alex Morgan halda sæti sínu frá því í fyrra en Ada Hegerberg, Ali Krieger, Carli Lloyd, Leonie Maier, Eugenie Le Sommer og Hope Solo detta út.

Heimsliðið:

Hedvig Lindahl (Svíþjóð, Chelsea)

Lucy Bronze (England, Lyon)
Nilla Fischer (Svíþjóð, Wolfsburg)
Wendie Renard (Frakkland, Lyon)
Irene Paredes (Spánn, PSG)

Camille Abily (Frakkland, Lyon)
Dzsenifer Marozsán (Þýskaland, Lyon)
Marta (Brasilía, Orlando Pride)

Pernille Harder (Danmörk, Wolfsburg)
Lieke Martens (Holland, Barcelona)
Alex Morgan (Bandaríkin, Orlando Pride)