Sara Björk Gunnarsdóttir, leikmaður Wolfsburg og íslenska landsliðsins, furðar sig í dag á tímasetningunni á því þegar leikmaður ársins í karla- og kvennaboltanum verður útnefndur og tekur með því undir orð liðsfélaga síns, Pernille Harder.

Harder er ein af þremur efstu í kjöri evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA, ásamt Ada Hegerberg og Amandine Henry frá Lyon. Verður tilkynnt 30. ágúst næstkomandi hvaða knattspyrnukona þótti best á síðasta tímabili í Evrópu.

Er það á sama tíma og tilkynnt verður hvaða leikmenn voru bestir í karlaflokki og þegar dregið verður í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. 

Þegar nánar er rýnt í dagsetninguna kemur í ljós að engin sem er tilnefndur í kvennaflokki kemst á verðlaunaafhendinguna sjálfa enda á sama tíma og leikir í undankeppni HM 2019. Á danska landsliðið með Pernille innanborðs leik 30. ágúst gegn Króatíu á heimavelli.

„Samgleðst þér Pernille, þetta er afar verðskuldað en hvað er málið? Árið er 2018. Afhverju er þetta enn í gangi,“ sagði Sara á Twitter í færslu sem sjá má hér fyrir neðan.