Áður en lengra er farið skal taka fram að landsleik Íslands og Mold­óvu var ekki lokið þegar Fréttablaðið fór í prentun og því verður ekki fjallað um hann á þessari síðu. Þess í stað verður sjónum beint að fallegri sögu frá Spáni.

Síðasta snerting Santi Cazorla fyrir Arsenal var rosaleg 30 metra sending inn fyrir vörn Ludogorets á Mesut Özil sem skoraði í auðveldum sigri þann 19. október 2016. Skömmu síðar haltraði hann út af, aumur í hásininni. Hann spilaði aldrei aftur fyrir félagið. Þetta virtust ekki alvarleg meiðsli í upphafi en þegar frá leið var óttast að taka þyrfti fótinn af Cazorla.

Alls var litli töframaðurinn frá í 636 daga vegna meiðslanna og sýkingar sem kom í kjölfarið. Samkvæmt frétt BBC át sýkingin átta sentimetra af hásininni og hann fór í ellefu aðgerðir vegna meiðslanna. Arsene Wenger sagði að þetta væru verstu meiðsli sem hann hefði orðið vitni að.

Læknar þurftu að taka skinn af vinstri handlegg Cazorla og græða á ökklann. Hann er þess vegna með hálft húðflúrið sitt af handleggnum á ökklanum. Flestir íþróttaáhugamenn hafa einhverja vitneskju um meiðslasögu Cazorla og leið hans aftur á toppinn og er klappað í hvert sinn sem nafn hans er lesið upp þegar hann leikur á útivelli með Villarreal á Spáni. „Þegar ég spila á útivelli og áhorfendur taka svona á móti mér – það eru verðlaun út af fyrir sig,“ sagði Cazorla í viðtali við breska blaðið Independent þar sem farið var yfir ferilinn og meiðslin.

Þar segist hann ekki finna neitt fyrir hásininni en hann líti öðruvísi á fótboltann. „Ég nýt hans meira. Tek inn stemninguna á völlunum, að fá að vakna og fara á æfingu og svo framvegis. Mér líður vel og það er mikilvægast. Að vera í núinu.“

Cazorla átti fyrst að vera frá í þrjá mánuði, svo kom í ljós að tímabilið væri búið og svo heyrðist bara ekkert. Fyrr en árið 2017 að hann fór í viðtal við spænska blaðið Marca þar sem í ljós kom alvarleiki meiðslanna. Í maí 2018 var tilkynnt að Arsenal myndi ekki endurnýja samning sinn við leikmanninn. Hann skoraði 29 mörk í 180 leikjum og var gríðarlega vinsæll meðal stuðningsmanna.

Hann fékk að æfa með unglingaliði Alaves og samdi svo við uppeldisfélag sitt, Villarreal, til eins árs. Flestir voru sammála um að þetta væri fallega gert hjá félaginu og tóku fréttunum ekkert sérstaklega alvarlega. Hann átti að fá greitt eftir leikjafjölda og spænskir miðlar giskuðu á að hann fengi að koma inn á í lokaleiknum – til að kveðja stuðningsmennina.

En Cazorla var á öðru máli. Hann missti aðeins af þrem leikjum og ljóst að töfrarnir voru ennþá í löppunum. Villarreal fór úr fallhættu og í Evrópubaráttu. Á þessu ári hefur hann komið að níu mörkum í 13 leikjum og á föstudaginn byrjaði hann inn á í landsleik gegn Möltu.

Hann sér ekki eftir neinu en langar að spila einu sinni enn á Emirates. „Hjá stóru félagi eins og Arsenal nær maður ekki að meðtaka stærðina fyrr en maður er farinn. Arsenal var stærsta félagið sem ég spilaði með á ferlinum og ég sakna alls sem tengist Arsenal.
Ég náði aldrei að segja almennilega takk og bless en mig langar að gera það við stuðningsmennina. Áður en skórnir fara upp í hillu langar mig að spila einu sinni enn á Emirates,“ sagði hann við Independent.

Hver veit nema að það gerist. Arsenal myndi allavega taka honum opnum örmum eins og flestir aðrir trúlega líka – þó hann sé kominn með smá grátt í vanga.