Þetta voru síðustu æfingarleikir liðsins fyrir undankeppni HM sem hefst í haust. Þjálfarateymið gerði fimm breytingar á liði Íslands frá fyrri leiknum sem lauk með 3-2 sigri Íslands.

Ein þeirra sem komu inn i liðið var Berglind Björg Þorvaldsdóttir sem komst nálægt því að brjóta ísinn um miðbik fyrri hálfleiks þegar Berglind slapp inn fyrir vörn Íra en Courtney Brosan sá við henni.

Berglindi brást ekki bogalistin í upphafi seinni hálfleiks þegar hún skoraði eftir fyrirgjöf Andreu Rán Snæfeld Hauksdóttir. Berglind gerði vel og náði að koma boltanum í netið eftir að fyrsta snertingin sveik hana.

Á lokakafla leiksins innsiglaði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir sigur Íslands með góðu skoti. Þetta var þriðja mark Karólínu fyrir A-landsliðið.