Sandra María Jessen er búin að skrifa undir samning hjá þýska félaginu Bayer Leverkusen til átján mánaða en þetta verður í annað skiptið sem Sandra María leikur með þýska félaginu.

Kemur þetta fram á heimasíðu Þórs í dag og að Sandra María hafi skrifað undir átján mánaða samning sem gildir út næsta tímabil.

Akureyringurinn var í haust valin besti leikmaður Pepsi-deildarinnar eftir að hafa skorað fjórtán mörk í átján leikjum fyrir Þór/KA.

„Þetta eru blendnar tilfinningar, en að sjálfsögðu hefur alltaf verið draumurinn frá því að ég var lítil að fara út í atvinnumennsku og því er ég bara spennt og hlakka til að fara út,“ segir Sandra í samtali við heimasíðu Þórs.

Þetta er í þriðja sinn sem Sandra heldur út í atvinnumennsku en hún lék með Leverkusen árið 2016 og Slavia Prag á síðasta ári.

„Ég er mjög spennt að vera komin aftur til Leverkusen. Ég naut þess að vera hér fyrir þremur árum síðan sem var fyrsta atvinnumannalið mitt en í millitíðinni hef ég öðlast mikla reynslu,“ segir Sandra í samtali við heimasíðu Bayer Leverkusen.

Þýska félagið óskaði eftir því að fá Söndru og Önnu Rakeli Pétursdóttir á reynslu í haust sem leiddi til þess að hún skrifaði undir samning í Þýskalandi.

Leverkusen er með tíu stig eftir þrettán umferðir í deildinni, þremur stigum fyrir ofan fallsæti.

Sandra verður með því annar íslenski leikmaðurinn í þýsku deildinni á eftir Söru Björk Gunnarsdóttur sem leikur með toppliði Wolfsburg.