Þýska knattspyrnusambandið hefur ákveðið að refsa ekki Jadon Sancho, leikmanni Borussia Dortmund, eða öðrum leikmönnum þýsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu sýni þeir skilaboð til stuðnings George Floyd.

Sancho, Marcus Thuram, Achraf Hakimi og Weston McKennie sýndu allir George Floyd sem lést af hendi lögreglumanns í Minneapolis í Bandaríkjunum á dögunum þegar þeir fögnuðu mörkum sínum í leikjum síðustu helgar í deildinni.

Enski landsliðsmaðurinn var áminntur með gulu spjaldi fyrir athæfi sitt en nú hefur verið ákveðið að ógilda það gula spjald og tekin sú ákvörðun að refsa ekki þeim leikmönnum sem sýndu Floyd stuðning í verki.

Aga- og úrskurðarnefnd þýska knattspyrnusambandsins segir í tilkynningu sinni að það sé stefna sambandsins að styðja við hverja þá háttsemi sem hafi það að markmiði að koma í veg fyrir kynþáttafordóma. Því hafi verið ákveðið að refsa ekki fyrir þær aðgerðir sem fyrrgreindir leikmenn gripu til hvorki þá né í framtíðinni.