Marco Reus, fyrirliði karlaliðs Borussia Dortmund í knattspyrnu, hefur tjáð Sky Sports að Jadon Sancho, vængmaður liðsins muni vera um kyrrt hjá félaginu í eitt keppnistímabil í viðbót hið minnsta.

Þessi 20 ára gamli leikmaður hefur verið sterklega orðaður við Manchester United í allt sumar og fram á haustið en nú virðist sem ekkert verði af þeim félagaskiptum.

„Við erum ánægðir með að Sancho hafi tekið þessa ákvörðun þar sem hann leggur mikið til liðsins við að skora mörk, leggja upp mörk og tryggja okkur stig. Hann er mjög mikilvægur hlekkur í okkar liði," segir Sancho um liðsfélaga sinn.

Forráðamann Borussia Dortmund hafa undanfarnar vikur og daga tekið í sama streng og fyrirliði liðsins gerir í samtali við Sky Sports en kollegar þeirra hjá Manchester United hafa tíma til 5. október næstkomandi til þess að fá þá til þess að skipta um skoðun.