Jadon Sancho, einn eftirsóttasti táningur Evrópu, mun yfirgefa Dortmund næsta sumar og fylgist Manchester United grannt með gangi mála.

Fréttastofan Sky í Þýskalandi segir að Sancho sé búinn að gera upp hug sinn um að yfirgefa þýska félagið næsta sumar.

Sancho er á þriðja tímabili sínu hjá Dortmund eftir að þýska félagið keypti hann frá Manchester City þegar Sancho var aðeins sautján ára gamall.

Hjá þýska félaginu hefur enski landsliðsmaðurinn slegið í gegn og komið að 25 mörkum í átján leikjum það sem af er tímabilsins.

Manchester-félögin tvö, Chelsea og Liverpool hafa helst verið nefnd til sögunnar sem næsti áfangastaður Sancho en hann hefur einnig verið orðaður við Real Madrid.