San Marínó-menn urðu í gær fámennasta þjóðin til að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum en þessi 34 þúsund manna þjóð eignaðist þá bronsverðlaunahafa.

Þetta litla ríki sem er landlukt innan Ítalíu vann þá fyrstu Ólympíuverðlaunin í sögunni. Það var skotfimikonan Alessandra Perilli sem náði þessum sögulega árangri.

Perilli varð fyrsti San Marínó-maðurinn til þess að verða í fjórða sæti eða ofar þegar hún hafnaði í fjórða sæti á Ólympíuleikunum í London árið 2012.

„Þetta eru fyrstu verðlaun mín og þjóðarinnar á Ólympíuleikum. Þrátt fyrir að vera fámenn þá erum við við stolt af þjóðerni okkar. Ég er viss um að þessu verður fagnað vel og innilega heima, þó að ég hafi ekki séð viðbrögðin,“ sagði Perilli í samtali við fjölmiðla eftir að hún fékk verðlaunapeninginn langþráða um hálsinn.

San Marínó er með fjóra keppendur á Ólympíuleikunum sem fram fara í Tókýó þessa dagana, líkt og við Íslendingar.