Aðeins fáeinum vikum eftir að íþróttamálayfirvöld á Ítalíu og Spáni tilkynntu að efstu deildir kvennaboltans þar í landi yrðu að atvinnumannadeildum, fékk kvennaknattspyrnuhreyfingin góðan meðbyr í vikunni þegar ECA, samtök félagsliða í Evrópu, kynntu markmið samtakanna um að efla kvennaknattspyrnu í Evrópu.

Samtökin telja 246 félög í 55 mismunandi löndum, sem taka nú þátt í verkefninu að koma kvennaknattspyrnu í Evrópu á næsta stig og eru samtökin með háleit markmið á mörgum sviðum. Stefnan var gefin út til ársins 2023 en þess getið að þetta sé hluti af langtímamarkmiði samtakanna.

Hægt er að sjá stefnuna í heild sinni hér.

Meðal þess sem rætt var í skýrslunni var hugmynd um aðra Evrópukeppni í líkingu við Evrópudeildina til viðbótar við stærri útfærslu af Meistaradeild Evrópu sem og Heimsmeistarakeppni félagsliða. Um leið voru markmiðin að koma á auknu fjárhagslegu öryggi, betra og skilvirkara skipulagi innan félaganna og stórbæting í rannsóknum sem einblína á knattspyrnukonur. „Fullkomið jafnrétti kynjanna í knattspyrnu er háleitt markmið en um leið markmið sem við stefnum að. Félögin eru lykilaðilarnir í að koma því á,“ sagði Charlie Marshall, framkvæmdastjóri ECA, í stefnunni.

„Þetta er mjög metnaðarfull skýrsla, sem er jákvætt. Það er erfitt að segja hvort að þeir nái sínum markmiðum, það er ólíklegt að það verði komið á jafnrétti eftir tvö ár, en þetta þokast í rétta átt og það eru strax komin háleit markmið,“ segir Guðbjörg Gunnarsdóttir landsliðsmarkvörður sem leikur í dag með Arna-Björnar í Noregi, aðspurð út í innihald skýrslunnar.

Hún tekur undir mikilvægi þess að bætt verði í rannsóknir á knattspyrnukonum, í stað þess að nota rannsóknir af knattspyrnumönnum og færa það yfir á atvinnukonur í sömu grein. Í stefnunni er talað um aukna áherslu á íþróttavísindi, áhrif tíðahrings kvenna og að fara í rannsóknir á hvernig hægt væri að minnka áhættuna á krossbandameiðslum kvenna.

Hún tekur sjálf þátt í langtímarannsókn með félagsliði sínu þetta árið.

„Það sem vakti athygli mína í þessari skýrslu var aukin áhersla á rannsóknir á afreksíþróttakonum. Þegar kemur að fyrirbyggingu meiðsla, þá sé ég ekki að það sé munur á deildum eftir undirlagi með tíðni krossbandsslita. Það gæti haft meira með kvenmannslíkamann að gera og væri áhugavert að skoða,“ segir Guðbjörg og heldur áfram:

„Við hjá Arna-Björnar erum að taka þátt í rannsókn þar sem allt er skoðað. Við þurfum reglulega að gefa blóðsýni, hittum kvensjúkdómalækni, gerum grein fyrir tíðahringnum okkar, mataræðið er tekið fyrir og álagið skoðað í lengri tíma til að rannsaka betur líf afrekskvenna í íþróttum.“

Hún segist enn upplifa mikinn mun á aðstöðu milli kynjanna.

„Æfingaálagið hjá okkur er ekkert minna en karlamegin en að mörgu leyti er aðstaðan ekki jafn góð. Aðgengið að sjúkraþjálfurum og aðstöðu til endurheimtar er ekki sú sama, þegar álagið hefur aukist til muna undanfarin ár, “ segir Guðbjörg, áður en hún bakkar aftur um nokkur ár.

„Þegar maður pælir í því, þá var líka alveg fullt af glórulausum hlutum þegar ég var að stíga mín fyrstu skref í atvinnumennsku. Á fyrstu Algarve-mótunum mættum við á mánudegi og spiluðum fjóra leiki á átta dögum með tuttugu leikmenn sem er alveg glórulaust. Maður hugsaði ekkert út í þetta þá, en núna er sem betur fer búið að fækka leikjum.“

Guðbjörg á að baki 64 leiki fyrir A-landslið Íslands.
fréttablaðið/getty

Eitt af lykilatriðum stefnunnar er að auka atvinnumennsku og gera reksturinn sjálfbærari, en um leið að auka fagmennsku í þjálfun.

„Um leið er frábært að sjá að stefnan er að hjálpa klúbbum að byggja upp sjálfbært skipulag. Það eru mörg félög sem reka þetta sundurgreint, reka kvenna- og karlaliðin sem mismunandi félög. Íslensk lið eru mjög framarlega í þessum málum þar sem flest félög deila völlum og æfingaaðstöðu. Til samanburðar mætti bæta margt á Norðurlöndunum. Í Lilleström lék ég með besta liði landsins sem vann alla þá titla sem í boði voru, en samt fengum við hvorki sömu æfinga­aðstöðu né afnot af aðalvellinum,“ segir Guðbjörg og heldur áfram:

„Miðað við þetta virðast félögin gera sér grein fyrir því að það hagnist allir á þessu. Að íþróttin haldi áfram að vaxa í sameiningu, þar sem félög reka karla- og kvennalið, sem er jákvætt fyrir samfélagið.“

Um leið verði félögum veitt aðstoð við að semja um styrktar­aðila og standi til boða neyðarsjóður ef tekjustreymi brestur, eins og gerðist þegar Kopparbergs/Gautaborg, sænsku meistararnir, urðu um tíma gjaldþrota á dögunum.

„Félögin þurfa að vera sjálfbær, það eru enn þá mörg kvennafélög sem eru með fáum starfsmönnum, sem ná ekki að verða jafn stór og liðin sem stærstu félög Evrópu setja á laggirnar. Sænsku meistararnir, Kopparsberg/Gautaborg, félagið varð gjaldþrota en til lengri tíma mun félagið njóta góðs af því undir merkjum Hacken sem er stærra félag. Það tryggir þeim betri aðstöðu þar sem mannvirkin eru til staðar,“ segir Guðbjörg og tekur undir að það sé jákvætt að fá fleiri alþjóðlegar keppnir til að auka sýnileika kvennaboltans.

„Með þessu ættu fleiri lið að verða sýnileg. Það ætti að auka sölutekjur og möguleikann á sjónvarpstekjum sem er stærsti tekjumöguleikinn.“