Búið er að staðfesta að leikur Tottenham og Fulham fer ekki fram í kvöld eftir að kórónaveirusmit kom upp innan leikmannahóps Fulham. Á sama degi varð ljóst að áhorfendur fá ekki lengur að mæta á leiki í Liverpool borg.

Leikur Tottenham og Fulham er annar leikur umferðarinnar sem þarf að fresta vegna smits eftir að fresta þurfti leik Manchester City og Everton á mánudaginn.

Fljótlega fóru að heyrast raddir um smit innan leikmannahóps Fulham og hefur nú verið staðfest að leiknum var frestað að beiðni Fulham.

Að sögn Fulham voru staðfest smit í leikmannahópnum og fleiri leikmenn farnir að sýna einkenni kórónaveirunnar.