Listaskautasambandið samþykkti um helgina að hækka lágmarksaldur þátttakenda í alþjóðlegum mótum og verða einstaklingar að vera orðnir sautján ára á næstu Vetrarólympíuleikum.

Ákvörðunin var tekin í kjölfarið af því að hin fimmtán ára Kamila Valieva frá Rússlandi varð skyndilega heimsfræg eftir sigur Rússa í liðakeppni á listskautum á Vetrarólympíuleikunum fyrr á þessu ári.

Stuttu seinna kom í ljós að Valieva féll á lyfjaprófi nokkrum vikum fyrir Ólympíuleikana. Alþjóða íþróttadómstóllinn, CAS, felldi úr gildi keppnisbann yfir Valievu vegna ungs aldurs hennar í tæka tíð fyrir einstaklingskeppnina þar sem hún lenti í fjórða sæti.

Samkvæmt fyrri viðmiðum þurftu einstaklingar að vera fimmtán ára gamlir en það verður hækkað um eitt ár á næsta ári og annað ár fyrir Vetrarólympíuleikana á Ítalíu árið 2026.