Jón Karl Ólafsson, formaður Fjölnis, ritaði formannspistil í ársskýrslu félagsins sem birtist fyrir skömmu, þar sem hann sagði að komið væri að ákveðinni ögurstundu í rekstri íþróttafélaga. Í pistlinum segir hann að Fjölnir hafi rætt opinskátt um að núverandi rekstrarform íþróttafélaga gangi ekki upp til lengdar. Það hafi þó verið nokkuð erfitt að fá opinskáa umræðu á milli forráðamanna íþróttafélaga um leiðir, til að mæta þeim breytingum á forsendum sem eru að verða á rekstri félaganna. Hann benti á að fáir trúi því, að rekstrarform íþróttafélaga verði óbreytt eftir um 10 ár.

„Ég er að reyna að nálgast þetta á rekstrarlegum grundvelli. Þetta eru náttúrulega trúarbrögð hjá sumum,“ segir Jón Karl þegar Fréttablaðið náði tali af honum. „Við erum ungt félag sem hefur ekki þennan rótgróna grunn af fólki sem er tilbúið að leggja tíma sinn og vinnu og jafnvel peninga fyrir félagið sitt. Við erum að sjá fjármagn frá fyrirtækjum alls staðar minnka, áhorfendum er ekki að fjölga, þannig að rekstrarforsendur félaga eru orðnar þannig að það er varla nokkur heil brú í þessu.“

Jón Karl segir að samtal þurfi að eiga sér stað hjá þeim sem stjórna félögunum, frekar en að félaginu sé siglt upp á sker sem pólitíkin þarf að stíga inn í. „Þegar á hólminn er komið þá skiptir máli hvort búningurinn er grænn eða brúnn eða blár eða hvítur eða hvernig sem er. Það virðist keyra menn inn í samtalið þannig okkur hefur gengið illa að fá formenn til að setjast niður.

Ég hef líka verið að benda á að yfirstjórn íþrótta hér á Íslandi er of stór og of flókin. Það eru til sérsambönd, ÍSÍ, UMFÍ, héraðssambönd og það er ofboðslega flókið að átta sig á því hver er að aðstoða hvern. ÍSÍ til dæmis virðist líta á sig sem stuðningsaðila við afreksíþróttir og Ólympíuleikana, en eru samt í alls konar öðru og þetta er meðal annars samtal sem ég hef verið að kalla eftir. Og því miður er erfitt að fá menn að borðinu.“

Hann segist alveg skilja að Valsmenn hugsi bara um Val, KR-ingar um KR, Garðbæingar um Stjörnuna og svo framvegis. „Ég hef verið að benda á það sem er að gerast úti í Skandinavíu, sem er sameining félaga. Á milli Mosfellsbæjar og Seltjarnarness eru 12 meistaraflokkar karla og kvenna, að reyna að vera fræg í fótbolta. Í Kaupmannahöfn eru þrír alvöru meistaraflokkar í efstu deild. Í Árósum er eitt félag. Midtjylland vann Manchester United hér forðum daga og það lið varð til út af sameiningu liða á Jótlandi. FCK til dæmis er annað mjög gott dæmi. Þetta er ein leið sem mig langar að skoða. Er þörf að vera með 12 liða efstu deild? Er betra að fækka liðum og geta horft á að reksturinn gæti gengið? Þetta þarf að ræða.“

Hann bendir á að Fjölnismenn séu ekki að prédika að þeir séu með lausn við öllum vandamálum sem nú herja á íþróttafélög. „Við erum búin að tala um þetta í nokkur ár og höfum verið opinská með það að þetta samtal þurfi að eiga sér stað. Við erum ekki með lausnina en það er betra að spyrja; verður rekstrarform íþróttafélaga óbreytt eftir um 10 ár? og svar flestra er nei. Er þá ekki næsta skref að við sem erum að stýra þessum félögum reynum að vega og meta hvaða leiðir er best að fara til þess að hægt sé að gera sjálfbærara og rekstrarhæfara umhverfi en við erum að horfa á í dag.“

Þá vill hann meira gegnsæi og bendir á að það sé erfitt að segja söguna ef tölurnar eru faldar hér og þar. „Ég veit að það er hart í ári hjá mörgum og verri en mörg lið láta uppi. Sum félög, sem er gott og blessað, eru að taka leikmenn inn og setja á launaskrá hjá fyrirtækjum í sínum bæjarfélögum. Það skekkir myndina. Auðvitað þurfum við að mynda okkur stóra skoðun hvernig rekstrareiningin íþróttafélag á að reka sig. Ég vil gera það fyrir opnum dyrum. En það er erfitt að segja söguna án þess að vera með allar tölur.

Persónulega finnst mér fáránlegt að taka ekki samtalið.“

Jón Karl Ólafsson