Þýska fyrirtækið TeamViewer hefur gefið það út að samningur þess við enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United verði ekki endurnýjaður eftir að núverandi samningur fellur úr gildi árið 2026. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Tilkynningin kemur aðeins 18 mánuðum eftir að fyrsti samningur hlutaðeigandi tók gildi en Manchester United fær rúmar 47 milljónir punda á ári hverju vegna samningsins og TeamViewer fær í staðinn auglýsingu á besta stað framan á treyjum félagsins.

Fjallað er um málið á vefsíðu Daily Mail og þar segir að virði hlutabréfa í TeamViewer hafi fallið verulega síðan að samningurinn tók gildi.

Í tilkynningu TeamViewer segir að samstarfið við United hafi vissulega varpað kastljósi á fyrirtækið en engu að síður sé það ákvörðun þess að endurnýja ekki samstarfið að samningnum loknum.

Ekki er hægt að kenna Manchester United einu og sér um dýfuna í virði hlutabréfa, þar komi að margir mismunandi þættir. Til að mynda stríðið í Úkraínu sem og efahyggja á þýskum mörkuðum.