Mohamed Salah skoraði bæði mörk Liverpool þegar liðið lagði Watford að velli með tveimur mörkum gegn engu í 17. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla á Anfield í dag.

Fyrra mark Salah kom eftir snarpa skyndisókn þar sem Roberto Firmino og Sadio Mané sáu um að koma egypska framherjanum í góða stöðu sem hann vann vel úr. Salah var svo réttur maður á réttum stað eftir misheppnað skot Divock Origi í seinna markinu.

Salah hefur skorað níu mörk í deildinni á yfirstandandi keppnistímabili en það er jafn mikið og liðsfélagi hans, Sadio Mané, og Sergio Agüero, sóknarmaður Manchester City, Harry Kane, framherji Tottenham Hotspur, og Danny Ings sem spilar fyrir Southampton.

Liverpool sem hélt marki sínu hreinu í fyrsta skipti á Anfield á þessari leiktíð hefur 49 stig á toppi ensku úrvalsdeildarinnar en liðið hefur 11 stiga forskot á Leicester City sem fær Norwich City í heimsókn klukkan 15.00 í dag.

Watford sem var að leika sinn fyrsta leik undir stjórn Nigel Pearson í dag vermir hins vegar botnsæti deildarinnar með níu stig en liðið er sex stigum á eftir Aston Villa sem er í næsta sæti fyrir ofan fallsvæðið.