Egypski fótboltamaðurinn Mohamed Salah hefur ítrekað ósk sína um að framlengja samning sinn við Liverpool en núverandi samningur hans rennur út eftir 18 mánuði.

Enskir fjölmiðlar segja að spænska stórveldið Barcelona fylgist grannt með stöðu mála hjá Salah og hafi hug á að tryggja sér þjónustu hans ef að samningaviðræður hans við Liverpool renna út í sandinn.

„Ákvörðunin um næstu skref eru í höndum forráðamanna Liverpool og þeir verða að leysa þau mál sem standa í vegi fyrir því að samningur verði undirritaður.

Það eru engin vandræði í samningaviðræðunum en við þurfum að ná samkomulagi og boltinn er hjá þeim eins og sakir standa. Þetta snýst auðvitað að að einhverju leyti um það hversu mikið Liverpool sýni fram á að þeir vilji mig og hversu hátt þeir meta mig fjárhagslega.

Þetta snýst hins vegar ekki einungis um það. Mér líður mjög vel hjá Liverpool og vil vera áframí ensku úrvalsdeildinni. Það er ánægjulegt að heyra áhuga frá Xavi og Barcelona en ég er með hugann við Liverpool," segir Salah um stöðu mála.

Salah er bæði marka- og stoðsendingahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar en hann hefur skorað 13 mörk í fyrstu 15 leikjum Liverpool og auk þess gefið níu stoðsendingar. Liverpool situr í öðru sæti deildarinnar með 34 stig, einu stigi á eftir toppliðinu, Manchester City.