Í viðtali við GC-Magazine á dögunum var Salah spurður út í stöðu sína hjá Liverpool. Fregnir herma að hann vilji tvöfalda laun sín hjá félaginu með nýjum samning, sjálfur segist hann ekki vera að biðja um brjálæðislega háa upphæð.

,,Ég vil vera áfram hjá félaginu en þetta er ekki í mínum höndum, þetta er í þeirra höndum. Þeir vita hvað ég vil, ég er ekki að biðja um brjálæðislega hluti," sagði Salah í viðtali við GQ-Magazine.

,,Ég er á mínu fimmta ári hjá félaginu. Ég þekki félagið mjög vel, elska stuðningsmenn þess og stuðningsmennirnir elska mig. Ég hef gert stjórnendum félagsins ljóst hverjar mínar kröfur eru, þetta er í þeirra höndum," sagði Salah.

Salah gekk til liðs við Liverpool frá ítalska liðinu Roma í júlí árið 2017. Síðan þá hefur hann spilað 229 leiki fyrir félagið, skorað 148 mörk og gefið 56 stoðsendingar. Hann vann Meistaradeild Evrópu með félaginu árið 2019 og varð Englandsmeistari árið 2020.