Egypska knattspyrnusambandið greindi frá því í gær að Mohamed Salah hefði greinst jákvæður af kórónaveirunni. Salah sem er einkennalaus er kominn í einangrun og verður því ekki með liðsfélögum sínum gegn Tógó í dag.

Salah er fimmti leikmaður Liverpool sem greinist með kórónaveiruna á þessu tímabili. Áður höfðu Sadio Mane, Thiago, Xherdan Shaqiri og Konstantinos Tsimikas greinst með veiruna og eru allir búnir að ná sér til fulls. Þá er Roberto Firmino líklegast á leiðinni í sóttkví eftir að smit kom upp innan brasilíska landsliðsins.

Ólíklegt er að Salah geti gefið kost á sér í toppslag Liverpool gegn Leicester eftir átta daga. Egyptinn hefur byrjað tímabilið vel og skorað átta mörk í átta leikjum fyrir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.