Mohamed Salah framherji Liverpool varð ekki fyrir alvarlegum meiðslum þegar Hamza Choudhury miðvallarleikmaður Leicester City tæklaði hann nokkuð groddaralega í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla um helgina.

Salah fór í myndatöku í gær og þar kom í ljós að einungis er um bólgur að ræða og verður hann í meðferð næstu daga til þess að vinna bug á bólgunum.

Hann mun ekki leika með egypska landsliðinu í landsleikjahléinu þegar liðið mætir Botswana í vináttulandsleik. Salah mun því einbeita sér alfarið að því að ná sér af meiðslum sínum.

Næsti leikur Liverpool sem er með fullt hús stiga á toppi deildarinnar eftir átta umferðir er á móti Manchester United. Búist er við því að Salah verði með í þeim leik sem fram fer sunnudaginn 20. október.