Mohamed Salah, leikmaður Liverpool, verður viðstaddur jarðarför Davide Astori, fyrrum liðsfélaga síns hjá Fiorentina en ítalskir miðlar greina frá því að hann muni mæta í jarðarförina í dag.

Aðeins tveir sólarhringar eru í stórleik Liverpool gegn erkifjendunum í Manchester United í enska boltanum en Salah fékk leyfi félagsins til að ferðast og vera viðstaddur jarðarförina. 

Salah verður ekki eini fótboltamaðurinn sem verður viðstaddur þegar Astori verður borinn til grafar en fjölmargir ítalskir knattspyrnumenn eru mættir til Flórens, þar á meðal lið Juventus aðeins tólf tímum eftir sigurinn gegn Tottenham í gær.

Astori féll skyndilega frá eftir að hafa fengið hjartaáfall í svefni en hann var aðeins 31 árs gamall. Var hann fyrirliði Fiorentina í ítalska boltanum og átti að baki 14 landsleiki fyrir hönd Ítalíu.