Kvennalandsliðið hefur verið ljósi punkturinn á fremur erfiðu ári fyrir Knattspyrnusamband Íslands. Liðið hefur verið að standa sig vel bæði innan og utan vallar, keppir í lokakeppni EM á næsta ári og er í baráttunni um laust sæti á HM.

„Við erum ekkert alltof mikið að velta okkur uppúr þessu, þetta kemur okkur svo sem ekkert við. Við finnum ekki fyrir aukinni pressu á að standa okkur sökum þess sem hefur átt sér stað, við höfum verið að standa okkur vel í gegnum öll þessi ár. Gaman samt að athyglin sé að koma meira á okkur núna, við reynum bara að fylgja okkar gildum sem er að standa okkur innan og utan vallar. En neikvætt á sama tíma að það er neikvæð umræða í kringum KSÍ og karlana.“

Hún er ánægð með þá þróun sem er að eiga sér stað í kvennaboltanum út um heim allan. Vaxandi áhuga má greina á kvennaknattspyrnu bæði meðal stuðningsmanna sem og hjá öðrum tengdum aðilum.

,,Kvennaboltinn hefur almennt verið allt of lengi í bakgrunninum og er loksins að koma núna inn með bylgju sem er að lyfta boltanum á hærra stig,“ sagði Glódís á blaðamannafundi í dag.

Hún segir UEFA hins vegar sína kvennaknattspyrnunni vanvirðingu með vali á leikvöllum fyrir Evrópumótið í Englandi á næsta ári. Íslenska liðið spilar á frekar litlum völlum og ætla má að ekki munu allir komast að sem vilja styðja liðið á mótinu.

„Mér finnst þetta vanvirðing við kvennaboltann, þetta er ekki í lagi og lélegt af Evrópska knattspyrnusambandinuað að koma því þannig í kring að leikir munu fara fram þarna. Það er nægur áhugi en það verður að vera völlur sem tekur við þessu,“ sagði Glódís Perla Viggósdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu á blaðamannafundi í dag.

GettyImages

Telur Ísland geta barist um verðlaunasæti á EM

Íslenska kvennalandsliðið tekur þátt á Evrópumótinu í Englandi næsta sumar og Glódís segir leikmenn liðsins verða meðvitaðri um mótið eftir því sem það líður nær því. ,,Það er búin að vera mikil umræða um þetta óg við erum ótrúlega spenntar að fara á um en nú þurfum við að huga að undankeppni HM, það er erfiðara að komast þangað en á EM og ég vona að við náum að gera það á meðan ég er í landsliðinu."

Glódís segir erfitt að meta það hvort að núverandi landsliðið sé það besta sem hún hefur spilað með á sínum ferli. ,,Við erum með öðruvísi landslið núna en við höfum verið með áður. Núna erum við með mikið af ungum og tæknilega góðum leikmönnum í bland við reynslumeiri leikmenn sem búa yfir þessum gömlu góðu gildum sem fyrri landslið hafa verið byggð á. Þegar að við blöndum þessu saman fáum við góða blöndu. Ég er ótrulega spennt fyrir því að sjá hvað þetta lið getur náð að gera saman."

En telur hún að liðið geti barist um verðlaunasæti á Evrópumóti næsta árs?

,,Já ég ætla að henda því fram hérna. Ef við höldum áfram á þessari vegferð með heppni og stemmningu í farteskinu ætla ég að segja að það sé allt hægt. Hópurinn er hungraður í að gera betur en síðast. Fyrsta markmiðið verður hins vegar að komast upp úr riðlinum."

©Torg ehf / Valgardur Gislason

,,Þrjú stig í boði og við ætlum að taka þau"

Ísland mætir við Kýpur á morgun og fyrir fram ætti íslenska liðið að vinna leikinn nokkuð örugglega. Fyrri leikur liðanna endaði með fimm marka sigri Íslands. Glódís segir leikmenn Íslands ekki eiga í vandræðum með að gíra sig upp fyrir leiki gegn töluvert lakari andstæðingum ,,Við eigum aldrei í vandræðum með að mótivera okkur. Við lítum á þennan leik eins og hvern annan leik, það eru þrjú stig í boði og við ætlum að taka þau."

Hún segir íslenska liðið verða að einblína á sína eigin spilamennsku. Viðbúið er að Kýpverjar mundi liggja djúpt á vellinum og leggja mikla áherslu á varnarleik sinn. Glódís segir liðið þurfa að vera þolinmótt á bolta.

Glódís hefur verið fastamaður í vörn íslenska landsliðsins undanfarin ár og hefur nú spilað 96 landsleiki fyrir A-landslið Íslands, hún segist þó ekki hugsa mikið um þessa tölfræði. ,,Þetta er ekkert sem maður er að pæla allt of mikið í. Það verður vonandi gaman að ná 100 leikjum bráðum. Þvi fyrr þvi betra," sagði Glódís Perla Viggósdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu á blaðamannafundi í dag.