Antonio Conte stjóri Tottenham ýjar að því að Richarlison spili lítið sem ekkert það sem eftir lifir á tímabilinu. Richarlison gagnrýndi hlutina hjá Tottenham eftir að liðið féll úr leik í Meistaradeildinni í vikunni.

Hann gagnrýndi það að hafa verið stillt upp í byrjunarliði á æfingu en svo hafi það ekki orðið raunin í leiknum gegn AC Milan.

„Ég horfði á viðtalið við Richarlison, hann var ekki að gagnrýna mig. Hann var að segja að tímabilið sitt hefði verið lélegt," sagði Conte.

„Tímabilið hans hefur ekki verið gott, hann hefur verið meiddur, hann hefur spilað og skorað í Meistaradeildinni en fór síðan á HM og meiddist illa.“

Framherjinn frá Brasilíu á enn eftir að skora fyrir Tottenham í ensku úrvalsdeildinni.

„Það er ekkert mark komið, hann var heiðarlegur þegar hann sagði að tímabilið hefði ekki verið gott. Tímabilið er ekki búið og ef hann á skilið að spila þá fær hann tækifæri.“

„Undir lok viðtalsins gerir hann mistök og fer að tala um sjálfan sig en ekki liðið. Þá er hann sjálfselskur, ég hef sagt leikmönnum það að ef þeir vilja ná árangri og vinna titla. Þá þarf að tala um okkur en ekki sjálfan sig.“