Benjamin Mendy, leikmaður Manchester City, sagðist í dag vera saklaus af öllum þeim níu kærum er snúa að honum og voru lesnar upp í dómssal í morgun.

Mendy er sakaður um sjö nauðganir, kynferðisbrot og eina tilraun til nauðgunar. Öll atvikin eru sögð hafa átt sér stað heima hjá leikmanninum á tímabilinu október 2018 til ágúst á síðasta ári.

Réttað verður yfir Mendy frá og með 25. júlí næstkomandi ásamt meðákærða vini hans Louis Saha Matturie sem er ákærður fyrir 10 brot, þar sem sjö konur koma við sögu, þar af sjö nauðganir sem tengjast fimm konum og þrjár er tengjast kynferðisbrotum.

Bæði Mendy og Louis Saha ganga lausir gegn tryggingu en þeir voru handteknir í ágúst á síðasta ári og sátu fyrst um sinn í gæsluvarðhaldi í rúma fimm mánuði.

Mendy þurfti að skila inn vegabréfi sínu og gengur um með ökklaband, hann þarf að gefa sig fram við lögreglu á hverjum degi.