Niðurstaða í máli ökumannsins unga og efnilega Oscar Piastri gæti fengist síðar í vikunni en úrskurðanenfd hefur nú til skoðunar deilur hans og Formúlu 1 liðsins Alpine. Piastri vill ganga til liðs við McLaren en lygileg atburðarrás fór af stað í málinu í sumar.

Í upp­hafi ágúst­mánaðar tilkynnti franska Formúlu 1 liðið Alpine að samningar hefðu náðst við öku­manninn unga og efni­lega Os­car Piastri um að hann myndi fylla upp í sætið sem tvö­faldi heims­meistarinn Fernando Alon­so hefur vermt undan­farin tíma­bil hjá liðinu og aka fyrir Alpine frá og með næsta tímabili. Komu Piastri í Formúlu 1 hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu en atburðarrásin tók óvænta stefnu sama dag og Alpine kynnti ökumannsbreytingar sínar.

Seinna sama dag birtist yfir­lýsing frá Piastri á sam­fé­lags­miðlum þar sem hann kannaðist ekkert við að hafa samið við Alpine um að aka fyrir liðið í For­múlu 1 á næsta ári. Til­kynning Piastri kom öllum í opna skjöldu og hefur sett sam­starf hans við Alpine upp í loft.

Sögu­sagnir fóru strax á kreik um að Piastri hefði bak­við tjöldin átt í við­ræðum við McLaren og þær sögusagnir reyndust á rökum reistar. McLaren hefur nú til­kynnt að Daniel Ricciar­do verður ekki á­fram hjá liðinu á næsta tíma­bili en það er nú undir úrskurðanefnd Alþjóðaakstursíþróttasambandsins komið hvort verði af skiptum Piastri til McLaren.

Alpine heldur því hins vegar fram að Piastri sé samningsbundinn liðinu út næsta tímabil og varðar málið ákvæði sem var í samningi hans sem deilur eru um hvort hafi verið virkjað fyrir tilsettann tíma.. Úrskurðanefnd FIA mun nú ákvarða hvort svo sé og hvort Piastri sé heimilt að skipta um lið.

Eldfimt ástand

Piastri og umboðsmaður hans, fyrrum Formúlu 1 ökumaðurinn Mark Webber telja sig vera með gildan samning við McLaren sem er nú þegar búið að virkja breytingar á sínu liði fyrir næsta tímabil með brotthvarfi Ricciardo. Dæmi úrskurðanefndin hins vegar Alpine í hag verður að teljast ansi ólíklegt að Piastri muni aka fyrir liðið miðað við málavendingar.

Hins vegar gæti Alpine í því tilfelli krafist upphæðar frá McLaren eða öðru liði sem vill tryggja sér þjónustu Piastri. Búist er við því að úrskurðanefndin greini frá niðurstöðu sinni síðar í vikunni.

Piastri hefur eytt undanförnum fjórum árum í akademíu Alpine. Liðið hefur fjárfest miklum fjármunum í hann og Otmar Szafnauer, liðsstjóri Alpine segir hegðun ökumannsins unga bera merki óheiðarleika.