Egypskur blaðamaður er sakaður um fitusmánun í garð Eden Hazard, fyrirliða belgíska landsliðsins í knattspyrnu og leikmanns Real Madrid eftir blaðamannafund Belgíu eftir 2-0 tap liðsins gegn Marokkó á dögunum.

Egypski blaðamaðurinn hóf spurningu sína á því að segja að eftir því hafi verið tekið að Hazard hefði bætt á sig undanfarið.

,,Hvernig hefurðu verið að takast á við það og hvað veldur því?" spurði umræddur blaðamaður að í kjölfarið.

Hazard svaraði spurningunni á þá leið að þetta væri ekki rétt hjá blaðamanninum.

,,Þyngd mín hefur verið stöðug. Ég legg alltaf hart að mér að halda góðu líkamlegu formi og tel það vera það mikilvægasta hlutinn í þessu."

Myndband af atvikinu má sjá hér fyrir neðan en belgíska blaðið Het Nieuwsblad greinir síðan frá því að umræddur blaðamaður hafi haft kjark til þess að biðja Hazard um sjálfu af sér og honum.