Þessi fyrrum leikmaður Manchester United er sakaður um að ofbeldi gegn fyrrverandi kærustu sinni og að hafa ráðist á systur hennar. Líkamlega ofbeldið sem um ræðir er sagt hafa átt sér stað árið 2020. Þá er Giggs sakaður um að beita Kate Greville, fyrrverandi kærustu sína, andlegu ofbeldi á árunum 2017-2020.

Réttarhöldin yfir Giggs hófust í gær en hann lét af störfum sem þjálfari Wales í fótbolta vegna málsins. Peter Wright, saksóknari í málinu segir Giggs hafa vonda hlið. „Þetta er saga stjórnunnar sem beitir andlegu ofbeldi á konu sem hélt hún væri elskuð og virt. Því miður var veruleikinn annar,“ segir Wright.

Þegar Kate ætlaði að slíta sambandinu er Giggs sakaður um að hafa skallað hana í andlitið og gefið síðan systur hennar olnbogaskot í kjálkann.

Verjandi Giggs segir hann vera fórnarlambið og að ásakanir á hendur honum séu byggðar á andlegu ofbeldi, ýkjum og lygum.

Eitt af því sem kom fram á fyrsta degi réttarhalda er að Giggs hafi hent Kate naktri út af hótelherbergi í London og að hún hafi staðið á ganginum þar án fata og ekki vitað hvað ætti að gera.

Málið heldur áfram næstu daga en ensk blöð hafa gríðarlegan áhuga á málinu enda Giggs ein skærasta stjarna í sögu enska fótboltans.