Nico Schulz, leik­maður þýska úr­vals­deildar­fé­lagsins Borussia Dort­mund er sakaður um að hafa sparkað í­trekað í kvið barnshafandi þá­verandi kærustu sinnar árið 2020. Rann­sókn á á­sökununum er hafin en Borussia Dort­mund segist ekki geta gripið til að­gerða eins og sakir standa.

For­ráða­menn þýska knatt­spyrnu­fé­lagsins Borussia Dort­mund segjast hafa rætt leik­manninn varðandi á­sakanir á hendur honum en Nico er sakaður um að hafa sparkað í kvið þá­verandi kærustu sinnar árið 2020 á þeim tíma sem hún var barnshafandi. Fé­lagið hyggst grípa til aðgerða á þessu stigi málsins.

Fyrrum kærasta Schulz hefur sett fram um­ræddar á­sakanir á hendur honum og er rann­sókn á málinu hafin. Í kjöl­farið hafa spjótin beinst að Dort­mund og hvernig fé­lagið hyggst bregðast við þessum á­sökunum á hendur leik­manns félagsins og nú hefur fé­lagið svarað fyrir sig:

,,Nico hefur tjáð okkur að hann hyggist verjast þessum á­sökunum með hjálp lög­fræðing síns og hefur lýst yfir sak­leysi sínu. Þessar á­sakanir, sem Dort­mund hafði ekki fengið veður af fyrr en þær birtust í fjöl­miðlum, eru mjög al­var­legar og Dort­mund tekur þeim al­var­lega og vill í­treka stöðu sína gegn hvers kyns of­beldi."

Fé­lagið segist ekki geta gripið til frekari að­gerða á þessu stigi rann­sóknarinnar sem er á frum­stigi. Schulz var ekki í leik­manna­hópi Dort­mund sem vann 1-0 sigur á Bayer Le­verku­sen á laugar­daginn síðast­liðinn.

Nico gekk til liðs við Dortmund frá Hoffenheim í júlí árið 2019. Hann hefur spilað yfir 60 leiki fyrir félagið og á einnig 12 A-landsleiki að baki fyrir þýska landsliðið.