Í færslu sem birtist á heimasíðu Fram segir: ,,Fyrr í dag gaf Baggalútur út nýtt jólalag eins og þeir gera á hverju ári. Í þetta skiptið virðist þó vera maðkur í mysu þar sem þeir virðast hafa stolið jólalagi Framara síðan í fyrra, Fram að jólum, sem að strákarnir að vísu stálu frá Ítalíu."

Ljóst er að um góðlátlegt grín er að ræða á vegum Framara sem ætla ekki að aðhafast frekar í málinu. ,,Eftir að hafa ráðfært okkur við lögfræðinga Fram höfum við ákveðið að aðhafast ekki frekar í málinu. Við teljum hins vegar mikilvægt að koma þessum skilaboðum á framfæri."

Þeir telja aðeins eitt rétt í stöðunni. ,,Réttast í þessu væri að fá boðsmiða fyrir allt liðið á jólatónleika Baggalúts í desember! Tökum því sem góðri og gildri afsökun. Hér fyrir neðan má hlusta á lögin tvö.

DV fjallaði um málið í dag og þeim barst athugasemd frá Braga Valdimar Skúlasyni, liðsmanni Baggalúts vegna fréttar Framara: „Þetta er auðvitað stórskemmtilegt! En bara svo það sé á tæru þá er Baggalútur með öll leyfi frá rétthöfum þessa lags til að nota það — enginn stuldur þar. Áfram Fram!