Carlos Sainz, ökumaður Formúlu 1 liðs Ferrari, átti glimrandi frumraun með Ferrari á síðasta tímabili. Hann endaði í fimmta sæti í stigakeppni ökumanna á eftir ökumönnum Red Bull Racing og Mercedes sem voru í sérflokki.

Ferrari hefur hægt og bítandi verið að feta stíg upp á topp Formúlu 1 eftir mögur ár. Liðið átti hins vegar ekkert í keppni gegn Red Bull og Mercedes á síðasta tímabili en endaði í 3. sæti í stigakeppni bílaframleiðanda og Sainz er bjartsýnn á komandi tíma hjá liðinu.

Hann telur að ef Ferrari komi fram með samkeppnishæfan bíl, bíl sem getur barist um titla, þá sé hann tilbúinn í það. ,,100%. Einni helmingur síðasta tímabils veitti mér mikið sjálfstraust á bílnum og veitti líka liðinu mikið sjálfstraust. Ég er tilbúinn í baráttu næsta tímabils."

Hann er ánægður með frumraun sína með Ferrari. ,,Ég naut hennar mikið. Þetta var eitt af mínum uppáhalds tímabilum í Formúlu 1." Hann segir gott gengi liðsins á síðasta tímabili gefa þeim aukinn kraft fyrir næsta tímabil.

Talið er líklegt að Ferrari muni á næstu dögum bjóða Sainz nýjan samning. Forráðamenn liðsins eru mjög ánægðir með ökumenn sína en auk Sainz er Charles Leclerc, ökumaður Ferrari.

Carlos Sainz og Charles Leclerc mynda ökumannsteymi Ferrari
GettyImages

Er ítalski risinn að vakna?

Eftir versta árangur Ferrari í rúma fjóra áratugi árið 2020, náði Ferrari að enda síðasta tímabil í 3. sæti í stigakeppni bílasmiða.

Ferrari tókst að tvöfalda stigafjölda sinn milli ára og ná yfirhöndinni á móti McLaren en liðið var hins vegar langt frá því að vera í titilbaráttu.

Alls náðu ökumenn liðsins, Carlos Sainz og Charles Leclerc að komast samanlagt fimm sinnum á verðlaunapall en liðið leitar hins vegar en að sínum fyrsta sigri í kappakstri síðan í Singapúr árið 2019.

Síðasti heimsmeistaratitill hjá þessu fornfræga liði kom árið 2008 þegar að liðið vann stigakeppni bílasmiða. Þá er Kimi Raikkonen síðasti ökumaður liðsins til þess að vinna heimsmeistaratitil ökumanna fyrir Ferrari, sá titill kom árið 2007.

Kimi Raikkonen varð á sínum tíma heimsmeistari með Ferrari
GettyImages

Á næsta tímabili í Formúlu 1 verður keppt á nýrri kynslóð Formúlu 1 bíla og óvíst er á þessari stundu að segja til um það hvort Ferrari verði á meðal þeirra liða sem berjist um heimsmeistaratitla. Eitt er þó víst að þekkingin og hefðin er kemur að því að vinna titla er til staðar hjá liðinu sem mun ekki vilja taka skref aftur á bak á þessari stundu.