Þýska handboltafélagið Kiel hefur greint frá því að norski leikstjórnandinn Sandor Sa­gesen muni yf­ir­gefa herbúðir fé­lagsins sum­arið 2023.

Þá tilkynnti þýska félagið Flensburg að sömu sögu væri að segja af Magnus Rød, liðsfélaga Sagosen hjá norska landsliðinu.

Norski landsliðsmaðurinn Magnus Gullerud er svo á förum frá þýska félaginu Magdeburg næsta sumar.

Talið er að Sagosen, Rød og Gullerud muni ganga til liðs við norska fé­lagið Kolstad þegar samningar leikmannanna við félög þeirra renna út en forráðamenn norska félagsins eru stórhuga um þessar mundir.

Þannig eru íslensku landsliðsmennirnir Janus Daði Smárason, sem leikur með þýska liðinu Göppingen, og Sigvaldi Björn Guðjónsson, sem leikur með Vive Kielce í Póllandi á meðal þeirra sterku leikmanna sem orðaðir eru við að færa sig um set til til Kolstad.

Norski landsliðsmarkvörðurinn Torbjørn Bergerud, sem spilar nú með danska liðinu GOG, á svo að verja mark Kolstad.

Hið rísandi stórveldi, sem er staðsett í Þrándheimi, rennir svo hýru auga til þess að fá Christian Berge, þjálfara norska karlalandsliðsins, til þess að stýra stjörnum prýddu liðinu.