Sænski kylfingurinn Henrik Stenson er sagður vera að ganga til liðs við LIV-mótaröðina í Sádi-Arabíu. Hann hefur því misst stöðu sína sem fyrirliði Evrópu í Ryder-bikarnum.

„Ryder-lið Evrópu getur staðfest að Henrik Stenson verður ekki fyrirliði Evrópu fyrir keppnina 2023. Tekur þetta gildi strax,“ segir í yfirlýsingu evrópska Ryder-liðsins.

Mótið fer fram frá 25. september til 1. október næstkomandi. Verður það haldið í Róm, höfuðborg Ítalíu.

LIV-mótaröðin, sem er fjármögnuð af yfirvöldum í Sádi-Arabíu, þykir afar umdeild enda búin að fá marga af bestu kylfingum heims til að skipta um mótaröð í skiptum fyrir gríðarlega háar fjárhæðir.