Ári eftir að Lionel Messi fór í viðtal við spænska blaðið Sport, þar sem hann ítrekaði að hann hefði engan áhuga á því að fara frá Barcelona, neitaði hann að æfa og vildi komast til Pep Guardiola hjá Manchester City. Ástæðan var einföld, segir í ítarlegri grein ESPN um Messi. Hann vill vinna Meistaradeildina og vera í liði sem er samkeppnishæft um alla titla. Barcelona væri  það ekki í dag að mati Messi. Það eru liðin fimm ár síðan Barca vann Meistaradeildina síðast. Undanfarin þrjú ár hefur liðið verðið niðurlægt af Liverpool, Roma og svo núna FC Bayern 8-2.

Í fyrsta sinn í 12 ár endaði Barcelona án titils. Ronald Koeman tók við liðinu og Messi stytti fríið sitt til að halda fund með nýja þjálfaranum. Sá fundur fór ekki vel.

ESPN greinir frá því að Messi og Guardiola hafi rætt saman í marga klukkutíma í síma í kjölfarið. Þeir séu góðir vinir og eiga margt sameiginlegt. Guardiola lofaði að koma skilaboðum til hæstráðenda hjá City en varaði hann við, samkvæmt heimildarmönnum ESPN, að það yrði enginn hægðarleikur að koma honum yfir til Englands.

ESPN segir að City hafi skoðað málið alvarlegum augum – eðlilega, en komist að því að það væri vonlaust að borga 700 milljónir evra fyrir kappann. Þetta væri aðeins hægt ef klásúlan um að ef Messi færi frítt væri virkjuð. Það gerðist ekki.

Þann 24. ágúst var bestu vinum Messi, Luis Suarez og Arturo Vidal, tilkynnt að þeir mættu fara og finna sér ný félög. Síðar um daginn sendi Messi svokallað Burofax eða ábyrgðarbréf þar sem hann fór fram á að fá að fara.

Barcelona leitaði til lögfræðiskrifstofanna Costa Torrecillas & Associates og Bufete Antras til ráðgjafar og báðar skrifstofurnar voru sammála um að félagið væri í öllum rétti að neita Messi um að fara. Þó bárust nokkrar fréttir og ESPN vitnar í þær að Barca íhugaði að láta hann fara. Félagið þarf að finna 300 milljónir evra vegna tekjufalls af COVID og Messi er með ein hæstu laun í fótboltaheiminum. Tækifærið til að láta hann fara var einmitt núna, segir í grein ESPN. Þann 4. september sagði Messi í viðtali við Goal að hann ætlaði að vera áfram. Tilhugsunin um að fara í mál við félagið sitt, sem hann elskaði þrátt fyrir allt, væri einfaldlega ekki í boði.

ESPN segir að Messi hefði vel geta farið frá félaginu. Tímasetningar hans voru allar vitlausar og miðað við hvað hann er með marga lögfræðinga á sínum snærum er merkilegt að hann hafi ekki virkjað klásúluna um að fá að fara frítt. Þá segja heimildarmenn ESPN að töluverður fjöldi leikmanna hafi hlakkað til að byrja upp á nýtt, með nýjan þjálfara og án Messi. Það hefði verið best fyrir alla.