Sævar Baldur Lúðvíksson varð um nýliðna helgi Norðurlandameistari í skylmingum en hann sigraði alla sína andstæðinga á mótinu sem haldið var í Espoo í Finnlandi. Gunnar Egill Ágústsson nældi sér svo í silfurverðlaun.

Þátttakendur á mótinu að þessu sinni voru um 600 í heildina en keppendur komu einnig frá Eystrasaltslöndunum. Keppt var með þremur tegundum sverða, það er lagsverð, stungusverð og höggsverð.

Ísland átti níu fulltrúa í Espoo sem allir kepptu með höggsverði. Frammistaða Íslendinganna var með ágætum og sigraði lið Íslendinganna glæsilega í liðakeppninni sem fram fór í gær.

Lið Íslands var þannig skipað: Sævar Baldur Lúðvíksson, Gunnar Egill Ágústsson, Emil Ísleifur Sumarliðason og Jakob Lars Kristmannsson.