Körfuknattleiksdeild Hauka hefur endurskipulagt þjálfarateymi meistaraflokks karla sem mun stýra liðinu það sem eftir lifir móts.

Sævaldur Bjarnason mun taka við stjórnartaumunum og honum til aðstoðar verða Kristinn Jónasson og Steinar Aronsson.

Þetta segir í tilkynningu á heimasíðu Hauka.

„Stjórn deildarinnar gerir sér grein fyrir því að næstu vikur verða erfiðar en er þess fullviss að leikmenn og þjálfarar snúi bökum saman og geri öfluga og heiðarlega tilraun til þess að koma sér á betri stað í deildinni. Við hvetjum alla Haukafjölskylduna, nær og fjær, að fylkja sér á bakvið liðið, senda því jákvæða strauma og hvetja þá til góðra verka," segir í tilkynningu Hauka.

Haukar sitja á botni Domino'd-deildarinnar með sex stig eftir 14 leiki en tap liðsins gegn Þór Akureyri í síðustu umferð deildarinnar var síðasta hálmstrá Israel Martin sem var látinn fara í upphafi vikunnar.

Fyrsta verkefni nýja þjálfarteymisins hjá Haukum er deildarleikur gegn Grindavík sem fram fer í Ólafssal annað kvöld.